Kristín Gunnarsdóttir setti íslenska ull á nýtt plan og blandaði við taílenskt silki.
„Vinkona mín er með gullsmíðaverkstæðið sitt í Taílandi, en þar er mikil silkiframleiðsla. Hún spurði mig einn daginn hvort það væri ekki hægt að gera eitthvað úr öllu þessu silki og þannig kviknaði þessi hugmynd,“ segir Kristín Gunnarsdóttir arkitekt, sem þróaði garnið Einrúm. „Þetta er blanda af íslenskri ull og taílensku silki og kemur í tveimur stærðum. Fínna bandið er sambærilegt einbandi og það grófara minnir á íslenska lopann.“ Kristín segist lengi hafa viljað taka íslenska lopann út fyrir rammann og viljað finna leið til þess að mýkja hann. „Einrúm er meira stílað inn á praktískan fatnað og þetta er meira fágað en lopinn sem við þekkjum. Ég myndi ekki segja að það væri útilegubragur á þessu.“ Garnið er gert í Ístex en Kristín sér um alla vöruþróun og er framleiðandi. Með garninu fylgja uppskriftir sem styðja við bandið. „Ég vildi gera íslensku ullina fágaðri og hef stílað uppskriftirnar inn á það. Einn viðskiptavinur minn sem prjónaði sér peysu úr garninu sagði að þetta væri sko engin bakpokapeysa,“ segir Kristín og hlær. – asi