HUGLEIÐSLA

Róandi samspil hugar og handa. Anda inn – anda út – og  prjóna í takt við andardráttinn

Frá því að ég lærði að prjóna hjá Ömmu Katrínu hef ég verið heilluð af takti prjónsins og þeirri hugarró sem næst við að prjóna. Prjón er allra einfaldasta leið sem til er til að framleiða efni. Það þarf einföld verkfæri, prjóna og band. Það eru aðeins til tvær tegundir af lykkjum sem eru undirstaðan, slétt lykkja og brugðin lykkja. Með þessar tvær lykkjur á valdi sínu getur hugmyndaflugið ráðið för ef því er gefinn laus taumurinn. Vissulega er hægt að bregða á leik með bandið en þegar allt kemur til alls eru það sléttar og brugðnar lykkjur sem allt byggist á, lykkjurnar sem taktfast forma flíkina sem verið er að skapa.

Við endurteknar hreyfingar handanna víkja skipulagðar hugsanir, hugurinn verður frjáls og óbundinn. Þannig næst sú hugarró sem fyrir marga er lykillinn að hamingju. Markvisst má stilla saman andardráttinn og takt prjónsins. Að prjóna sléttar lykkjur í takt við innöndun og brugðnar lykkjur í takt við útöndun, draga djúpt inn andann og prjóna jafn margar sléttar lykkjur og andardrátturinn rúmar, anda rólega frá sér og prjóna á sama tíma eins margar brugðnar lykkjur og fráöndun rúmar. Takturinn endurspeglar hjartsláttinn, er róandi, skapar næði og meðvitund um núið.