SAGA TVEGGJA ÞRÁÐA
Í okkar huga táknar einrúm næði til sköpunar – rými sem myndast í huga þess sem skapar, rými sem myndast á milli einstaklingsins sem skapar og þess verks sem skapað er
TÆKIFÆRI TIL SKÖPUNAR
Prjón hefur fylgt mér frá barnæsku. Frá því að ég var lítil stúlka sem gekk á laugardögum heim til ömmu Katrínar til að sitja í horninu í eldhúsinu hennar og prjóna, hef ég verið hugfangin af íslensku ullinni, handverkinu og hefðinni. Í eldhúsi ömmu var einrúmið mitt. Amma mín kenndi mér að vinna með íslensku ullina og meta einstaka eiginleika hennar. Ég lærði að dýrmætum tíma væri vel varið í sköpun úr vönduðu hráefni, ekki síst lærði ég að njóta þess tíma sem sköpunin tekur.
Ég er fædd og uppalin á Íslandi en er um þessar mundir búsett í Danmörku ásamt eiginmanni mínum, Steffan. Við rekum saman arkitektastofu undir nafninu „einrúm arkitektar“. Merking nafnsins hefur verið leiðarstef í verkum okkar, í huga okkar táknar hugtakið einrúm rýmið og þá hugarró sem myndast við að skapa.
einrúm er afurð sögu og minninga; afurð tveggja ólíkra heima, tveggja ólíkra þráða. einrúm bandið er spunnið úr íslenskri ull og tælensku mórberjasilki. Ég vildi sýna fram á einstaka eiginleika ullarinnar, lyfta henni og gera hana nútímalega. Hugmyndin að því að blanda saman þessum ólíku þráðum, íslenskri ull og tælensku silki kviknaði hjá mér þegar vinkona mín sagði frá silkiþræði sem hún hafði kynnst við störf sín í Tælandi. Hún sagði frá því hvernig tælenskar konur í héruðum landsins framleiða silki til heimanota í bakgörðum sínum og hvernig þessi framleiðsla þeirra er þeim búbót. Ég fór til Tælands og kynnti mér framleiðslu silkisins. Ólíkir þræðir ullar og silkis eiga það sameiginlegt að vera afurð náttúrunnar og búa yfir einangrandi eiginleikum. Þetta heillaði mig og þrátt fyrir ábendingar um að þessi tvö efni væru of miklar andstæður til að standa saman gerði ég fjölmargar tilraunir þar sem ég skoðaði leiðir til að sameina þræðina, skoðaði í hvaða hlutföllum þeir áttu bestu samleið og tvinnaði þá saman.
Þörfin fyrir að skapa og löngun til að kanna nýja möguleika íslensku ullarinnar drifu þróun bandsins áfram. Samspil hönnunar og bands er kjarninn, bandið styður við prjónhönnun á sama hátt og ullin og silkið styrkja hvort annað.
Frá því að ég lærði að prjóna hef ég verið hugfangin af því hvernig hægt er að „framleiða“ flíkina sína sjálfur og á sama tíma njóta hverrar mínútu þess tíma sem það tekur, síðan nota og njóta flíkurinnar í langan tíma. Það er heillandi að velja sér verkefni og efnivið, glíma við þrautina þegar prjónauppskrift á prenti er yfirfærð í fast form þráðarins, finna hugarró í því þegar mörg hundruð lykkjur taktfast forma flíkina, njóta uppskerunnar þegar verkefninu er lokið og stoltsins þegar flíkin er tekin í notkun eða gefin þeim sem manni er kær.
Þetta er grunnurinn að einrúm hönnun. Uppskriftirnar eru að einföldum, fallegum og nútímalegum flíkum þar sem handverk, ánægja og áskorun eru hluti af sköpunarferlinu sem við vonum að þið njótið með okkur.
einrúm hefur hlotið styrk frá Tækniþróunarsjóði til markaðssetningar.