Einrúm ullarpeysan á rætur að rekja til hinnar hefðbundnu íslensku lopapeysu sem prjónuð er úr íslenskri ull, hinni kærkomnu ull sem hefur haldið hita á landsmönnum í aldaraðir. Ullarpeysan fellur að líkamanum og lagar sig að formum hans. Með tímanum víkkar peysan en fær aftur sitt upprunalega og aðsniðna form þegar hún er þvegin.

Prjónfesta í uppskrift er til viðmiðunar fyrir meðalstærð. Stærð peysunnar má breyta með fínni eða grófari prjónum. Peysan er með háum kraga og er ermalöng til að draga ermarnar fram fyrir hendurnar, nánast eins og vettlinga, og bretta svo upp ermarnar þegar það hentar. Auðvelt er að stytta eða síkka ermar, kraga og bol eftir smekk, ef því er að skipta.